Laufey Agnars er heimsmeistari í bekkpressu með búnaði
Heimsmeistarakeppnin í klassískri bekkpressu og bekkpressu með búnaði fer nú fram í Drammen í Noregi. Guðný Ásta og Laufey Agnars frá KFR voru í íslenska liðinu á mótinu og kepptu báðar í flokki M2 +84.
Laufey Agnars varð heimsmeistari í bekkpressu með búnaði í dag en hún tók 132,5 kg. í fyrstu lyftu, í annarri tók hún 137,5 kg. sem er Íslandsmet í +84 kg í M1 og M2, þriðja lyfta var svo 140 kg. sem tryggði henni heimsmeistaratitilinn í flokknum og í heildina fjögur glæsileg Íslandsmet.Þessi árangur hennar skilaði henni öðru sæti yfir alla keppendur í M2 flokki
Guðný Ásta átti einnig gott mót og tók 2. sætið, hún opnaði með 105 kg. á kjötinu, tók svo 127,5 kg. í annarri lyftu, sem er 5 kg. bæting á Pb. Hún reyndi svo við 135 kg. í síðustu sem var því miður dæmd ógild.Þær stöllur höfðu áður keppt í klassískri bekkpressu á mótinu þar sem Guðný hafnaði í 4. sæti eftir að hafa blandað sér í harða baráttu um efstu þrjú sætin. Þar opnaði hún með 105 kg. sem flugu upp og einnig 110 kg. (jöfnun á Pb og eigin Íslandsmeti) í annarri lyftu, þriðja lyftan (112,5 kg.) var dæmd ógild. Laufey tók þrjár öruggar lyftur í klassíkinni; 90, 92,5 og 95 kg. sem skiluðu henni 6. sæti í flokknum.

